Rekstrarspá 2020

Rekstrarspá félagsins eftir kaupin á Lykli gerir ráð fyrir að hagnaður ársins verði 2.387 m.kr. fyrir skatta. Einskiptiskostnaður vegna hagræðingar er áætlað að nemi 93 m.kr. og verði gjaldfærður á fyrsta ársfjórðungi 2020. Rekstrarspáin er sett fram með þeim fyrirvara að yfirferð yfir ýmsa kostnaðarþætti félaganna er ólokið, t.d. nýtingu sameiginlegs innkaupaafls og frekari hagræðingu í húsnæðismálum. Spáin verður endurskoðuð í tengslum við birtingu uppgjörs á fyrsta fjórðungi ársins.

Spáin fyrir 2020 gerir ráð fyrir um 4% vexti í eigin iðgjöldum á milli ára. Reiknað er með lækkun fjárfestingatekna á milli ára en áætlun um afkomu fjárfestinga byggir á langtímaviðmiðum einstakra fjárfestingaflokka þar sem erfitt er að spá fyrir um skammtímasveiflur á markaði.

Gert er ráð fyrir að eigin tjónakostnaður lækki um 1% á milli ára og að eigið tjónshlutfall lækki úr 84% í 80%. Gert er ráð fyrir að kostnaðarhlutfall vátrygginga verði 19% og að samsett hlutfall verði 98% á árinu 2020.

Tekjuskattur er 20% af tekjuskattsstofni en hagnaður af hlutabréfum og móttekinn arður vegna félaga er frádráttarbær frá skattskyldum tekjum. Tekjuskattsstofn mun því að hluta til ráðast af arði og ávöxtun hlutabréfa í fjárfestingasafni TM á árinu.