• Sigurður Viðarsson

Ávarp forstjóra

Ágæt afkoma við krefjandi aðstæður

Afkoma af starfsemi TM árið 2019 var með ágætum. Tæplega 1,9 milljarða króna hagnaður varð af rekstrinum sem er talsvert meiri hagnaður en árið 2018. Þar ræður góður árangur í fjárfestingum en yfir 10% ávöxtun er vel viðunandi. 13% arðsemi eigin fjár er heldur undir þeirri arðsemiskröfu sem stjórnendur hafa gert til félagsins en verður þó að teljast ásættanleg niðurstaða í umhverfi lækkandi vaxta. 

Tryggingareksturinn batnaði frá 2018. Langt fram eftir ári var útlit fyrir jákvæða framlegð af þeim hluta starfseminnar en nokkrir þættir gerðu að verkum að spár stóðust ekki. Talsvert frávik varð í skipatryggingum þar sem tjón urðu fleiri og stærri en undanfarin misseri, kostnaður eldri tjóna hefur vaxið – einkum vegna mikilla launahækkana síðustu ár – og óveðrið í desembermánuði olli víðtækum skemmdum eins og þekkt er.

Horfurnar í tryggingastarfseminni árið 2020 eru góðar. Á liðnu ári var nokkur vöxtur í iðgjöldum og var hann meiri en vöxtur tjóna og eru líkur á að sú þróun haldi áfram. Tjónaskuld til að mæta eldri tjónum hefur verið styrkt til muna auk þess sem sagan segir okkur að tjónum fækki með minni umsvifum í hagkerfinu. Á hinn bóginn er útlitið í fjárfestingastarfseminni breytt með lækkandi vöxtum. Rekstrarspá gerir ráð fyrir að hagnaður ársins 2020 verði tæpir 2,4 milljarðar króna.

Í upphafi árs 2020 var endanlega gengið frá kaupum á fjármögnunarfélaginu Lykli og það fært undir samstæðu TM. Lánveitingar eru nú ný grunnstoð í starfseminni og við blasa margvísleg tækifæri til að veita viðskiptavinum beggja fyrirtækja meiri og betri þjónustu en áður. Við vitum að eftirspurn er eftir heildstæðum lausnum í fjármögnun og tryggingum enda á vissan hátt um samofna þætti að ræða sem hvor um sig er stór liður í rekstri fyrirtækja og heimila.

Að auki er ætlunin að útvíkka starfsemina enn frekar. Sótt hefur verið um viðskiptabankaleyfi fyrir Lykil og gangi áætlanir eftir verður hægt að taka við innlánum síðar á árinu. Sú starfsemi verður með öðrum hætti en almennt tíðkast. Hvorki verða starfrækt bankaútibú né gefin út greiðslukort en með minni yfirbyggingu og þar með lægri rekstrarkostnaði gefst kostur á að veita hagstæðari innlánskjör en nú jafnan bjóðast.

Með kaupunum á Lykli breytist tekjulíkan TM talsvert. Til greiðslu hluta kaupverðsins var losað um fjárfestingareignir sem sveiflast í virði og gefa óreglulegar tekjur og fjárfest í rekstri sem skilar jafnara tekjustreymi til framtíðar. Við teljum að slík breyting sé einkar góð nú þegar hægt hefur á vexti í hagkerfinu og útlit er fyrir að enn dragi úr umsvifum frekar en hitt.

Loftslagsmálin eru með réttu sögð stærsta sameiginlega viðfangsefni samtímans enda hefur hlýnun jarðar með tilheyrandi breytingum á náttúrufar gríðarleg áhrif á allt líf manna. Hjá TM er vel fylgst með gangi mála. Veður er áhrifaþáttur í tjónum af flestu tagi og ljóst að allar breytingar á veðurfari hafa áhrif á tryggingafélög. Á því sviði nýtur TM góðs af samstarfi við endurtryggingafyrirtækið Sirius International Insurance Company þar sem grannt er rýnt í þróun og horfur. Í krafti þess samstarfs kom Dance Zurovac-Jevtic yfirloftslagssérfræðingur Sirius til landsins í haust og hélt erindi á Arctic Circle, Hringborði norðurslóða, um auknar öfgar í veðri af völdum loftslagsbreytinga og hvað þær munu þýða fyrir tryggingastarfsemi í heiminum. Of snemmt er að segja til um hver áhrifin nákvæmlega verða en TM leggur sín lóð á vogarskálarnar. Var félagið til að mynda í hópi þeirra fyrstu sem undirrituðu loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar þar sem hvatt er til og stuðlað að því að skilyrði Parísarsáttmálans verði uppfyllt og markmið um kolefnishlutleysi innan 20 ára náist. TM hefur í þessu skyni hafið mælingar á ófjárhagslegum þáttum í starfseminni og birt niðurstöður undanfarin ár en sú skýrsla er nú viðauki við ársreikning félagsins og hluti af ársskýrslu þessari.

Sigurður Viðarsson