Ávarp stjórnarformanns

Tímamótaár í sögu TM

Árið 2019 var skrifaður nýr kafli í langa og farsæla sögu TM þegar ráðist var í kaup á Lykli fjármögnun hf. Með viðskiptunum verða miklar breytingar á TM og líklega þær mestu frá stofnun árið 1956.

Kaupverðið, um níu og hálfur milljarður króna, var fjármagnað með sölu eigna og hlutafjárútboði. Boðnir voru hlutir fyrir þrjá milljarða króna í forkaupsréttarútboði og festu hluthafar kaup á þeim öllum. Sýnir það góðan stuðning hluthafa við verkefnið. 

Þetta var í annað sinn sem viðræður fóru fram um kaup TM á Lykli en upp úr fyrri samningaumleitunum slitnaði á árinu 2018. Niðurstaðan nú er gleðiefni fyrir eigendur félagsins enda stendur það enn sterkara en áður, reiðubúið að takast á við spennandi áskoranir í mestu umskiptum okkar tíma í fjármálaþjónustu.

Með kaupunum á Lykli breytist uppbygging og skipulag allrar starfsemi fyrirtækisins. TM hf. verður eignarhaldsfélag tveggja dótturfélaga sem starfa annars vegar á tryggingamarkaði og hins vegar á lánamarkaði. Hlutverk móðurfélagsins verður margþætt og miðar að því að styðja við og þjónusta dótturfélögin með ýmsum hætti í gegnum tvö ný svið sem starfa munu þvert á samstæðuna og meðal annars sinna rekstrar- og fjármálaþjónustu, fjárstýringu, umsjón með fjárfestingum, mannauðsmálum, viðskiptaþróun, áhættustýringu og fjárfestatengslum. Vegna þessara breytinga fer nú í hönd vinna við endurskilgreiningu ýmissa þátta, t.d. áhættuvilja hverrar einingar um sig, hlutverks stjórna dótturfélaga, fjármagnsskipanar og arðgreiðslustefnu félagsins. Er þá ónefnt hið vandasama verk að sameina tvö fyrirtæki sem lúta hvort sínum lögum og búa að eigin menningu og venjum.

Í tengslum við þessa umbreytingu hefur heitinu Tryggingamiðstöðin hf. verið lagt og TM hf. tekið upp í staðinn. Var sú ákvörðun tekin til einföldunar enda hefur fyrirtækið verið nefnt TM mörg undanfarin ár hvort heldur er í almennu tali eða markaðs- og kynningarefni.

Í fyrsta sinn frá skráningu TM í Kauphöll 2013 gerir stjórn ekki tillögu um greiðslu arðs enda var tekið tillit til vænts hagnaðar ársins þegar stærð hlutafjárútboðsins í desember var ákvarðað. Ekki þótti skynsamlegt að sækja nýtt fé til hluthafa til þess eins að skila því aftur þremur mánuðum síðar. Sex undanfarin ár hafa arðgreiðslur og endurkaup numið samtals á þrettánda milljarð króna og áfram er stefnt að því að greiða arð til framtíðar.

Enn eru fjármálafyrirtæki, og þar með tryggingafélög, skattlögð umtalsvert meira en önnur fyrirtæki í landinu. Þessi umframskattlagning einnar atvinnugreinar er ósanngjörn og veikir m.a. samkeppnishæfni um starfsfólk þar sem sérstakur fjársýsluskattur leggst á laun. Það er mikill misskilningur ef einhver heldur að þessi skattlagning sé án afleiðinga en áhrifin eru áþreifanlegri nú en síðustu ár þar sem samdráttur hefur verið á ýmsum sviðum atvinnulífsins og horfur nú verri en í langan tíma. Við þessar aðstæður er lag að afnema alla aukaskatta á fjármálafyrirtæki og haga skattheimtu gagnvart þeim með sama hætti og gert er með fyrirtæki í öðrum greinum.

Örvar Kærnested