Starfskjaranefnd

Starfskjaranefnd er önnur tveggja undirnefnda stjórnar TM en stjórn skal eigi síðar en mánuði eftir aðalfund félagsins kjósa þrjá menn til setu í nefndinni og skulu þeir valdir með hliðsjón af reynslu og þekkingu á viðmiðum og venjum við ákvörðun starfskjara stjórnenda og þýðingu þeirra fyrir félagið. Þá skal meirihluti nefndarmanna vera óháður félaginu og daglegum stjórnendum þess.

Skýrsla starfskjaranefndar TM starfsárið 2019-2020

Nefndarmenn starfskjaranefndar

Í starfskjaranefnd eru Kristín Friðgeirsdóttir sem er formaður nefndarinnar, Atli Atlason og Einar Örn Ólafsson sem tók sæti í nefndinni fyrir starfsárið 2019–2020. Skýrsla þessi nær yfir starfsár nefndarinnar frá mars 2019 til mars 2020.

Fjöldi funda og hlutverk

Starfskjaranefnd TM hélt fjóra fundi á starfsárinu. Fundargerðir starfskjaranefndar eru fylgiskjöl þessarar skýrslu.

Hlutverk starfskjaranefndar er að undirbúa ákvarðanir stjórnar TM um almenna starfskjarastefnu félagsins og um starfskjör forstjóra og stjórnarmanna, sbr. m.a. 79. gr. a. hlutafélagalaga nr. 2/1995.

Þá ber nefndinni að útbúa drög að starfskjarastefnu félagsins og hafa eftirlit og eftirfylgni með henni.

Nefndinni er jafnframt ætlað að fylgja eftir þróun kjara- og mannauðsmála hjá félaginu til langs tíma og tryggja að laun og önnur starfskjör séu í samræmi við lög, reglur og bestu framkvæmd hverju sinni. Þá skal nefndin meta áhættu sem starfskjaramál kunna að skapa fyrir félagið. Nánar er getið um hlutverk nefndarinnar í starfsreglum hennar.

Á hverju ári kallar nefndin eftir greiningum sem og niðurstöðum mælinga ásamt upplýsingum um starfshætti og ferla við ákvörðun og eftirfylgni starfskjarastefnu félagsins. Nefndin setti sér starfsáætlun í upphafi tímabilsins sem unnið var eftir.

Starfskjarastefna

Starfskjarastefna TM felur m.a. í sér ítarlegar upplýsingar um helstu þætti kaupaukakerfisins sem er jafnframt fylgiskjal starfskjarastefnunnar. Með því fyrirkomulagi er gagnsæi aukið og tryggt að samþykki hluthafafundar þurfi til að breyta kaupaukakerfinu.

Starfskjaranefnd fór yfir starfskjarastefnu TM og var hún aðlöguð að nýju og breyttu skipulagi TM en ekki voru gerðar efnislegar breytingar á stefnunni að öðru leyti. Jafnframt var farið yfir reglur um kaupaukakerfi og þær aðlagaðar að breyttu skipulagi en ekki voru gerðar efnislegar breytingar á reglunum.

Starfskjaranefnd leggur til við stjórn að starfskjaranefnd samstæðunnar sinni jafnframt dótturfélögum framvegis og að kaupaukakerfið gildi fyrir alla samstæðuna. Þetta verði útfært þannig að starfskjarastefnur dótturfélaga taki mið af og rími við stefnu móðurfélagsins og fylgi henni efnislega.

Starfskjarastefnur dótturfélaga þurfa að liggja fyrir áður en aðalfundir þeirra verða haldnir og mun starfskjaranefnd koma að mótun þeirra samkvæmt ofangreindu.

Uppfærð starfskjarastefna móðurfélagsins og uppfærðar reglur um kaupauka voru lagðar fyrir stjórnarfund þann 13. febrúar.

Framkvæmd starfskjarastefnu - eftirlit og eftirfylgni

Á fundi starfskjaranefndar með stjórnendum í nóvember 2019 var farið yfir hvaða aðferðum er beitt við framkvæmd starfskjarastefnunnar innan TM, m.a. verklag við launaákvarðanir og launagreiningar. Skoðuð var þróun launa hjá TM miðað við þróun launavísitölu og þróun launa á almennum vinnumarkaði.

Eftirfarandi þættir eru lagðir til grundvallar við framkvæmd starfskjarastefnunnar:

 • verklag við launaákvarðanir,
 • launasamtöl,
 • innri launagreiningar,
 • verðmætamat starfa,
 • ytri launagreiningar,

          - launagreining PWC,
          - jafnlaunagreining,
          - þróun launavísitölu.

Þá voru lagðar fram upplýsingar um kaupaukakerfi TM. Farið var yfir til hverra það nær ásamt virkni þess og farið yfir að það sé í samræmi við reglur Fjármálaeftirlitsins (FME). Fram kom að sex starfsmenn njóta breytilegra starfskjara sem fylgja kaupaukakerfi TM, auk forstjóra. Kaupaukakerfið er tengt við fyrir fram ákveðna og mælanlega árangursmælikvarða sem eru ákveðnir í upphafi árs og endurspegla vöxt félagsins og fjárhagslegan ávinning til lengri tíma fyrir félagið og hluthafa þess. Árangursmælikvarðarnir eru bæði huglægir og hlutlægir og ráða hlutlægu þættirnir 80–100% en huglægu þættirnir 0–20%. Enginn kaupauki er greiddur ef arðsemi eigin fjár er undir 15% en það er einn af lykilmælikvörðum félagsins. Aðrir mælikvarðar miðast við mismunandi áherslur á hverju sviði.

Regluvarsla og áhættustýring framkvæma úttekt á kaupaukakerfinu ár hvert.

Samkvæmt árangursmælikvörðum kemur ekki til greiðslu kaupauka hjá lykilstjórnendum félagsins vegna ársins 2019 þar sem arðsemi eigin fjár er undir viðmiðum.

Þróun kjara- og launamála

Innan TM eru unnar launagreiningar til að fylgjast með þróun launa hjá TM í samanburði við launavísitölu, launaþróun á almennum vinnumarkaði og hjá samkeppnisaðilum. Þannig er unnið markvisst að því að uppfylla helsta markmið starfskjarastefnunnar sem er að TM sé samkeppnishæft og geti haldið í og laðað til sín framúrskarandi starfsfólk í þeim tilgangi að tryggja áframhaldandi vöxt og velgengni félagsins.

Á neðangreindri mynd má sjá að laun innan TM hafa hækkað um 5% að meðaltali á árinu. Samkvæmt því er þróun launa hjá TM í samræmi við launavísitölu almenna vinnumarkaðarins, sem hefur hækkað um 4,9% á sama tíma, en nokkuð yfir kjarasamningsbundnum hækkunum hjá VR og SA. Launaþróun er tekin út miðað við laun í september ár hvert.

Launathroun_1583763522959

 

* Laun í september, allt starfsfólk
** Laun í september, laun forstjóra og framkvæmdastjóra undanskilin
*** Hækkun 2019, ígildi 2% að meðaltali
**** Launaþróun milli 2018 og 2019 ekki fyrirliggjandi (Hagstofan)
***** Hækkun launavísitölu milli ára í septembermánuði

Niðurstaða jafnlaunagreiningar sýnir að óútskýrður munur á launum karla og kvenna er 2,12% körlum í hag á árinu 2019. Þetta er hagstæð þróun frá fyrra ári þar sem launamunur mældist 3,3% körlum í hag en hafa ber í huga að litlar breytingar geta haft mikil áhrif þar sem samanburðarhópar geta verið fámennir. Frá því að TM fékk jafnlaunavottun árið 2014 hefur launamunurinn sveiflast frá 1,4–4,1% en til að standast jafnlaunavottun þarf munurinn að vera undir 5% samkvæmt viðmiðum vottunaraðilans BSI.

Launakjör forstjóra

Samkvæmt starfskjarastefnu TM skulu starfskjör forstjóra hvað varðar grunnlaun vera samkeppnishæf miðað við forstjóra sambærilegra félaga á íslenskum markaði og taka mið af starfskjörum annarra starfsmanna félagsins til að tryggja samræmi og sanngjarna starfskjarastefnu innan þess. Þá skulu starfskjör forstjóra vera breytileg að hluta til og taka mið af árangri við rekstur félagsins og stöðu þess hverju sinni.

Eins og fram kemur hér að ofan þá fylgja breytileg starfskjör forstjóra kaupaukakerfi TM sem er tengt við fyrir fram ákveðna og mælanlega árangursmælikvarða sem eru endurskoðaðir af starfskjaranefnd og stjórn ár hvert.

Samkvæmt árangursmælikvörðum kemur ekki til greiðslu kaupauka til forstjóra vegna ársins 2019 þar sem arðsemi eigin fjár er undir viðmiðum.

Stjórnar- og nefndarlaun

Samkvæmt starfskjarastefnu TM skal þóknun til stjórnarmanna og vegna starfa í undirnefndum taka mið af þeim tíma sem stjórnarmenn verja til starfans og þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir. Við ákvörðun um stjórnarlaun skal einnig horft til þóknana til stjórnarmanna í sambærilegum félögum. Stjórnarmenn njóta ekki kaup- eða söluréttar, forkaupsréttar eða annars konar greiðslna sem tengdar eru hlutabréfum í félaginu eða þróun verðs á hlutabréfum í félaginu.

Starfskjaranefnd endurmetur laun stjórnar á hverju ári og horfir m.a. til launaþróunar innan TM og þróunar á launavísitölu sem og árangurs félagsins. Tillögur starfskjaranefndar um laun stjórnar, nefndarlaun og breytingar á starfskjarastefnu eru lagðar fyrir stjórn félagsins sem leggur fram tillögu fyrir aðalfund.

Starfskjaranefnd leggur til að stjórnarlaun og laun í undirnefndum taki hækkun sem nemur 3,4% en það er talsvert undir meðalhækkun launa hjá TM á árinu sem nam 5% og þróun launavísitölu almenna vinnumarkaðarins sem var um 4,9% árinu 2019.

Tillögur starfskjaranefndar miðað við 3,4% hækkun:

Hækkun frá 2019 3,4%
   
Stjórnarlaun 455
Formaður 910
Varamaður:  
    einskiptisgreiðsla 455
    per fund 130
Undirnefndir stjórnar per fund 97
Tilnefningarnefnd per klst. 21

Mannauðsmál, jafnréttismál og jafnlaunavottun

Mikilvægt er að hlúa vel að starfsfólki en ánægt starfsfólk er vísbending um að fyrirtækið sé góður og eftirsóknarverður vinnustaður auk þess sem margar rannsóknir sýna að ánægja starfsfólks sé forsenda þess að viðskiptavinir séu ánægðir.

Vinnustaðagreining var framkvæmd í mars og apríl 2019. Helstu lykilmælikvarðar sýna áframhaldandi góða stöðu TM í samanburði við gagnabanka Capacent og t.d. sýna þættir eins og helgun og hollusta betri niðurstöðu en í fyrri könnunum. Ekkert atriði er á aðgerðabili en unnið er í þeim þáttum sem stjórnendur vilja bæta og ekki síður skoðað hvernig halda má í þennan góða árangur.

Viðhorf starfsmanna til mælikvarða á sviði jafnréttismála þróast almennt upp á við á árinu 2019 og sem dæmi má nefna að 84% starfsfólks telja nú að konum og körlum séu greidd sömu laun fyrir sambærileg störf og vinnutíma hjá TM í samanburði við 76% árið 2018 og 59% árið 2017. Þá eru starfsmenn á heildina litið ánægðir með stöðu jafnréttismála hjá TM og hefur þessi mælikvarði þróast markvisst upp á við á undanförnum árum.

Innan TM er mikill metnaður fyrir því að tryggja jöfn tækifæri og jöfn kjör starfsfólks og hefur starfskjaranefnd lagt áherslu á að fylgjast með þróun þeirra mála innan félagsins. Unnið hefur verið markvisst að því að útrýma óútskýrðum kynbundnum launamun m.a. með fjölbreyttum launagreiningum, þátttöku í Jafnréttisvísi Capacent og úttekt óháðs aðila á jafnlaunakerfi TM til jafnlaunavottunar. Eins og fram kemur hér að ofan þá sýnir niðurstaða jafnlaunagreiningar að óútskýrður munur á launum karla og kvenna er 2,12% körlum í hag en til að standast jafnlaunavottun hjá vottunaraðilanum BSI þarf munurinn að vera undir 5%.

TM hefur gert samning við PayAnalytics um notkun hugbúnaðar til að framkvæma launagreiningar. Kerfið býður upp á möguleika á að greina laun oftar en í árlegri úttekt og t.d. sjá hvar má gera breytingar til að minnka kynbundinn launamun enn frekar og jafnóðum.

Á árinu var áfram unnið með Capacent að verkefni við innleiðingu jafnréttis undir nafninu Jafnréttisvísir en TM var fyrsta fyrirtækið sem fór í gegnum verkefnið. Þrír þættir eru lagðir til grundvallar í verkefninu og eru þeir eftirtaldir:

 • fjölbreytni í menningu og umhverfi,
 • skýr markmið og ábyrgð jafnréttismála,
 • gagnsætt ráðninga- og framgangsferli.


Verkefnið felst í því að farið er ofan í menningu fyrirtækisins og setti TM sér árleg markmið til þriggja ára í mismunandi málaflokkum og eru þeir eftirtaldir:

 • staða kynja í mismunandi stjórnunarlögum,
 • framgangs- og mentorkerfi fyrir konur,
 • ráðningaferli,
 • menning og umhverfi,
 • fyrirmyndir,
 • fræðsla og viðburðir.


Verkefnið er viðvarandi verkefni sem er ætlað að tryggja jafnrétti á vinnustaðnum í víðum skilningi. Við yfirferð á stöðu markmiða kom m.a. fram að jákvæð breyting er á viðhorfi til jafnréttismála en marktækur munur er á milli ára á viðhorfi starfsfólks til jafnréttismála innan TM. Staða kynja í stjórnunarlögum er óbreytt á milli ára og nokkuð frá markmiðum ársins um að lágmarki 35% af hvoru kyni sé í stjórnunarstarfi en 28% stjórnenda eru konur í dag. Markmið ársins 2020 gera ráð fyrir að stjórnendur verði að lágmarki 40% af hvoru kyni og því ljóst að nokkuð er í land til að ná því markmiði og gera þarf ráð fyrir að það taki lengri tíma að ná því.

Tekin eru viðtöl árlega til að kanna stöðuna og hvernig unnið er að markmiðunum innan fyrirtækisins. Fimm af ofangreindum sex markmiðum eru mælanleg og hefur TM nú þegar náð fimm af markmiðunum.

Við skoðun á niðurstöðum á viðhorfi starfsmanna til jafnréttismála og tölfræði tengdri kynjum innan TM hafa allir mælikvarðar þróast marktækt upp á við á árinu 2019.

Kynjaskipting innan TM er 53% karlar og 47% konur. Í hópi stjórnenda eru 72% karlar og 28% konur. Meðallífaldur starfsmanna er 47 ár og meðalstarfsaldur er 13 ár. Starfsmannavelta er um 4% það sem af er árinu 2019 og telst það vera lágt hlutfall. Veikindafjarvistir eru um 3,7% sem er góð niðurstaða í samanburði við önnur fyrirtæki á íslenskum vinnumarkaði.

Á síðasta ári lagði starfskjaranefnd til að útbúin yrði viðbragðsáætlun vegna mála sem tengjast óeðlilegum og/eða slæmum samskiptum kynjanna og að innleiddur yrði samskiptasáttmáli TM.

Hafin er vinna við að skilgreina samskiptasáttmála eða leiðbeinandi tilmæli um samskipti milli starfsfólks TM. Innri þjónustukönnun sýndi að almennt veitir fólk góða þjónustu þvert á deildir og fólk er almennt kurteist og vingjarnlegt og tilbúið að aðstoða hvort annað.

Vegna samruna við Lykil fjármögnun hf. er lagt til að bíða með að fara í að skilgreina samskiptasáttmála og menningu þar til eftir að samruna við Lykil er lokið. Þá er stefnt á að skilgreina eftirfarandi:

 • þá menningu sem við viljum þróa innan fyrirtækisins,
 • hvernig samskipti við viljum eiga innan fyrirtækisins,
 • umræðu um gildin og hvernig þau birtast innan ólíkra starfa,
 • aðgerðir sem stuðla að þeirri sýn sem við höfum á framtíðarvinnustaðinn.


Innan TM er til ferli um einelti, áreitni og ofbeldi en ekki er annað sérstakt ferli um aðra ósæmilega hegðun umfram hefðbundið tiltal eða áminningu ef þess konar mál koma upp.

Starfskjaranefnd leggur áherslu á að TM fylgi því eftir að útbúa viðbragðsáætlun um hvernig eigi að bregðast við ef upp koma mál innan fyrirtækisins sem tengjast óeðlilegum og/eða slæmum samskiptum kynjanna. Jafnframt leggur starfskjaranefnd til að TM fylgi því eftir að innleiða samskiptasáttmála með þátttöku starfsmanna þar sem áhersla er lögð á góð samskipti og skýrar leiðir til að bregðast við slæmum samskiptum og koma málum sem upp kunna að koma í farveg innan fyrirtækisins.

Fræðslustefna TM felur m.a. í sér markmið um að hjá TM skuli starfa hæft, heiðarlegt og framsækið starfsfólk í umhverfi sem gefur því tækifæri til að vaxa og dafna. Starfsumhverfi TM er flókið og starfsemin gerir miklar kröfur um þekkingu og hæfni. Fræðslumál TM ná jafnframt út fyrir starfsmannahópinn til þeirra sem tilheyra ytri söluleiðum. Vátryggingasölumenn taka árlega að minnsta kosti 15 klst. í endurmenntun eða starfsþjálfun til að tryggja þekkingu þeirra og hæfni.

TM skólinn er yfirheiti fræðslumála hjá TM en áherslur skólans hafa verið á að miðla efni sem nær til allra, flestra eða tiltekinna hópa með námskeiðum sem eru opin öllum. Áhersla er lögð á ábyrgð hvers og eins í að sækja sér þá fræðslu sem viðkomandi þarfnast í samráði við yfirmann. Reynt er að ýta undir frumkvæði og ábyrgð hvers og eins til að sækja sér þá menntun sem nauðsynleg er hverju sinni til að bæta eigin frammistöðu og til starfsþróunar. Lögð er aukin áhersla á rafræna fræðslu og til að stuðla að því hefur TM innleitt Eloomi sem er rafrænt fræðslukerfi sem býður upp á námsefni á ýmsu formi s.s. kynningar á glærum, kennslumyndbönd, upptökur af fundum o.fl. Þá er haldið utan um þátttöku, yfirlit yfir fjölda klst. sem varið er til fræðslu og hvernig fræðslan nýtist.

Starfskjaranefnd leggur áherslu á að hlúð sé að verkefnum sem snúa að fræðslu, upplýsingamiðlun og stuðningi við starfsmenn og stjórnendur. Í fræðslumálum verður lögð áhersla á eftirfarandi þætti á komandi ári:

 • kynning á nýrri stefnu um fræðslu og starfsþróun,
 • þarfagreining á fræðslu fyrir dreifingaraðila vátrygginga bæði innan og utan TM,
 • framleiðsla á rafrænu fræðsluefni,
          - innanhússkerfi TM – helstu aðgerðir,
          - lagabreytingar – e.t.v. aðlagað að mismunandi hópum,
          - breytingar á ferlum,

 • möguleg þjálfun kringum gildi TM,
 • hugmyndir að áherslum í stjórnendaþjálfun á næstunni,
          - breytingastjórnun,
          - miðlun upplýsinga – að skapa traust,
          - innleiðing menningar,
          - endurskoðun á ferli frammistöðusamtala,
          - skoðun á möguleikum Eloomi til að létta framkvæmd,
          - skoðun á uppsetningu og ferli.

Mat á áhættu vegna starfskjaramála

Starfskjaranefnd metur það svo að tillögur nefndarinnar til stjórnar vegna starfsársins 2020–2021 skapi ekki áhættu fyrir félagið en vekur athygli á að fara þarf vel yfir mannauðsmál og starfskjaramál vegna samruna TM og Lykils fjármögnunar hf. Fyrir liggur að laun og réttindi starfsmanna í þessum tveimur einingum byggja á mismunandi kjarasamningum og mikilvægt er að vinna að samræmingu í þeim efnum. Einnig er mikilvægt er að menning TM og Lykils verði samræmd þar sem það besta frá báðum verði ríkjandi. Helsta áhættan hvað varðar starfskjaramál er þannig tengd því hvernig til tekst að samræma starfskjör, mannauðsmál og fyrirtækjamenningu á milli þessara tveggja eininga.

Mat á eigin störfum

Nefndin fór yfir þau viðmið og reglur sem starfskjaranefnd starfar eftir, þ.e. lög og reglur, m.a. um hlutafélög, nr. 2/1995, leiðbeiningar um stjórnarhætti, starfsreglur starfskjaranefndar, starfskjarastefnuna sem og starfsáætlun. Voru nefndarmenn sammála um að nefndin hefði sinnt þeim atriðum sem þar koma fram og ætlast er til af nefndinni.

Þá hafa nefndarmenn tekið þátt í árangursmati starfskjaranefndar sem unnið var af utanaðkomandi aðila og er liður í árangursmati stjórnar.

Tillögur starfskjaranefndar til stjórnar

Eftirfarandi eru tillögur sem starfskjaranefnd lagði til stjórnar TM á starfsárinu:

 • Stjórnarlaun og laun í undirnefndum tækju hækkun sem nemur 3,4% vegna starfsársins 2020–2021.
 • Starfskjarastefna TM verði aðlöguð að nýju og breyttu skipulagi TM.
 • Reglur um kaupaukakerfi verði aðlagaðar að breyttu skipulagi TM.
 • Starfskjaranefnd samstæðunnar sinni jafnframt dótturfélögum framvegis og að kaupaukakerfið gildi fyrir alla samstæðuna.
 • Starfskjarastefnur dótturfélaga taki mið af og rími við stefnu móðurfélagsins og fylgi henni efnislega.
 • Árangursmælikvarðar forstjóra verði endurskoðaðir.

 

Eftirfarandi eru tillögur starfskjaranefndar að áhersluatriðum næsta árs:

 • Áframhaldandi áhersla verði lögð á jafnréttis- og jafnlaunamál.
 • Áframhaldandi stuðningur verði við endurmenntun starfsmanna og stjórnenda.
 • Því verði fylgt eftir að útbúin verði viðbragðsáætlun vegna mála sem tengjast óeðlilegum og/eða slæmum samskiptum kynjanna.
 • Fylgt verði eftir innleiðingu samskiptasáttmála TM.
 • Endurskoðun fari fram á lykilmælikvörðum forstjóra og mögulega annarra stjórnenda vegna breytinga á TM.
 • Starfskjaranefnd vekur athygli á að fara þarf vel yfir mannauðsmál og starfskjaramál vegna samruna TM og Lykils fjármögnunar hf.

Samantekt

Út frá niðurstöðum vinnustaðagreiningar, mælikvörðum og samræðum við forstjóra og forstöðumann mannauðsmála metur starfskjaranefnd að TM sé framúrskarandi vinnustaður þar sem mikil áhersla er lögð á jöfn tækifæri og jöfn kjör. Að mati starfskjaranefndar vinna stjórnendur TM af heilindum að verkefnum á sviði jafnréttismála og allir mælikvarðar í þeim efnum sýna árangur af markvissri stefnu TM í jafnréttismálum. Þátttaka TM í Jafnréttisvísi Capacent er mikilvægt skref í því að tryggja jafnrétti á vinnustaðnum í víðum skilningi og tryggja heilbrigða fyrirtækjamenningu. Mikilvægt er að halda áfram á þeirri braut.

Niðurstöður árlegrar vinnustaðagreiningar sýna áframhaldandi góða stöðu TM í samanburði við önnur fyrirtæki á íslenskum vinnumarkaði og felst helsta áskorunin í því að viðhalda þeirri stöðu. Markvisst er fylgst með launaþróun innan TM m.a. með innri og ytri launagreiningum sem byggja á samanburði við launavísitölu, launaþróun á almennum vinnumarkaði og hjá samkeppnisaðilum. Þannig er unnið markvisst að því að uppfylla helsta markmið starfskjarastefnunnar sem er að TM sé samkeppnishæft og geti haldið í og laðað til sín framúrskarandi starfsfólk í þeim tilgangi að tryggja áframhaldandi vöxt og velgengni félagsins.

Launaþróun innan TM virðist vera í takt við launaþróun á íslenskum vinnumarkaði og það er mat starfskjaranefndar að launaþróun innan félagsins sé eðlileg.

TM hlaut jafnlaunavottun árið 2014 og hefur frá þeim tíma staðist jafnlaunaúttektir og þannig viðhaldið vottuninni. Niðurstaða jafnlaunagreiningar sýnir að óútskýrður munur á launum karla og kvenna er 2,12% körlum í hag en til að standast jafnlaunavottun hjá vottunaraðilanum BSI þarf munurinn að vera undir 5%. Starfskjaranefnd leggur mikla áherslu á að stjórnendur fylgist vel með þróun kynbundins launamunar og tryggi að félagið standist áfram úttekt og viðhaldi vottuninni.

Stjórnendum og starfsfólki stendur á hverju ári til boða tækifæri til endurmenntunar sem starfskjaranefnd metur mikilvægt enda þróast vinnumarkaðurinn hratt og tryggingastarfsemi er í hraðri þróun, sérstaklega hvað varðar stafræn mál. Mikilvægt er fyrir stjórnendur og starfsmenn að fylgjast vel með þeirri þróun og því sem er að gerast í þeim málum á hverjum tíma.

Það að starfsmannavelta TM mælist ekki nema 4% er vísbending um mikinn stöðugleika og styður við þá skoðun starfskjaranefndar að vel sé hlúð að starfsfólki og að starfsumhverfi félagsins sé með því besta sem gerist á íslenskum vinnumarkaði.

Það er mat starfskjaranefndar að starfskjarastefna félagsins sé í takt við stefnu félagsins, lög og reglur og standist þau viðmið sem gerð eru til starfskjarastefnu félaga á markaði. Laun og önnur starfskjör TM eru að mati starfskjaranefndar í samræmi við stefnu félagsins og reglur FME.

Starfskjaranefnd metur það svo að tillögur nefndarinnar til stjórnar vegna starfsársins 2020–2021 skapi ekki áhættu fyrir félagið en vekur athygli á að fara þarf vel yfir mannauðsmál og starfskjaramál vegna samruna TM og Lykils fjármögnunar hf. Helsta áhættan hvað varðar starfskjaramál er þannig tengd því hvernig til tekst að samræma starfskjör, mannauðsmál og fyrirtækjamenningu á milli þessara tveggja eininga.

Reykjavík 3. mars 2020

Kristín Friðgeirsdóttir
Einar Örn Ólafsson
Atli Atlason