Ávöxtun fjárfestingaeigna
Fjárfestingatekjur námu 2.945 m.kr. á árinu 2019 samanborið við 1.817 m.kr. á árinu 2018 og hækkuðu því um 62% á milli ára. Þar af voru 1.173 m.kr. eða 40% tilkomnar vegna skuldabréfa og lána til viðskiptavina og 1.774 m.kr. eða 60% var afkoma af hlutabréfum og sjóðum.
Fjárfestingatekjur 2019 (m.kr.)
Ávöxtun fjárfestinga var mjög góð eða 10,1% en til samanburðar hækkaði markaðsvísitala Gamma um 14,9% á árinu. Ávöxtun eignaflokka var misjöfn á árinu. Ávöxtun óskráðra hlutabréfa nam 23,4% og var mjög góð sem og ávöxtun hlutabréfa og hlutabréfasjóða sem nam 13,5%. Önnur verðbréf skiluðu hins vegar slakri afkomu en ávöxtunin var neikvæð um 12,2% og aðallega tilkomin vegna niðurfærslu fasteignasjóðsins Gamma Novus.
Ávöxtun fjárfestinga hefur gengið vel á undanförnum árum. Á síðastliðnum fimm árum hefur árleg ávöxtun verið á bilinu 6,6–16,5% og að meðaltali er árleg ávöxtun 12,2%. Yfir sama tímabil hefur markaðsvísitala Gamma hækkað um 9,6% að meðaltali.
Ávöxtun fjáreigna TM
Í árslok 2019 voru fjáreignir þannig samsettar að handbært fé, skuldabréf og útlán til viðskiptavina námu 23.976 m.kr. sem er 68% af heildarfjáreignum. Hlutabréf og sjóðir eru 8.856 m.kr. eða 25% af fjáreignum og aðrar fjáreignir 2.443 m.kr. eða 7% af fjáreignum. Á árinu minnkaði TM við eign sína í ríkisskuldabréfum en í árslok nam hún 2.026 m.kr. sem jafngildir 6% af fjáreignum félagsins. Hins vegar jók TM við eign sína í skuldabréfum öðrum en ríkisskuldabréfum um 3.529 m.kr. milli ára. Þá minnkuðu óskráð hlutabréf um 717 m.kr. milli ára þrátt fyrir góða afkomu eignaflokksins sem skýrist aðallega af sölu á HSV eignarhaldsfélagi sem var næststærsta óskráða hlutabréfaeignin um mitt ár og nam virði hennar þá 1.283 m.kr.
Í árslok 2019 var S121 ehf. stærsta einstaka eign félagsins en hún nam 2.845 m.kr. Næststærstu eignirnar voru AL260148 (1.312 m.kr.), Eyrir (1.266 m.kr.), ARION (1.182 m.kr.) og EIK161047 (1.080 m.kr.). Fimm stærstu fjáreignirnar námu samtals 7.684 m.kr. sem jafngildir 22% af fjáreignum félagsins. Tíu stærstu fjáreignirnar námu samtals 11.181 m.kr. sem jafngildir 32% af fjáreignum félagsins.