Fréttaannáll

Fyrirsagnalisti

08. feb. 2019 : TM kynnti nýja tíma í tryggingum

TM tók í notkun nýja stafræna lausn sem gerir fólki kleift að ganga frá sínum tryggingum sjálfvirkt á nokkrum mínútum. Um er að ræða nýjung á tryggingamarkaði hér á landi og hefur hin nýja stafræna lausn fengið nafnið, Vádís.
Lausnin býður upp á aðgengilegt og einfalt viðmót þar sem markmiðið er að tryggja ánægjulega reynslu viðskiptavina. Neytendur geta strax fengið verð í helstu tryggingar heimilisins hjá TM og gengið frá viðskiptum við félagið á nokkrum mínútum á netinu og í snjallsímum. Markmiðið með þjónustunni er að efla aðgengi að þjónustu og auka skilvirkni og hagkvæmni í starfseminni.

21. feb. 2019 : TM appið tilnefnt til Íslensku vef­verðlaunanna

TM appið var tilnefnt til Íslensku vefverðlaunanna í flokknum app ársins. Verðlaunaafhendingin er haldin á vegum Samtaka vefiðnaðarins (SVEF) með það að markmiði að efla vefiðnað á Íslandi, verðlauna bestu vefina og stafrænu lausnirnar og hvetja þá sem starfa á þessum vettvangi til dáða. TM appið var sett í loftið í janúar 2018 og er fyrsta app sinnar tegundar á Íslandi og þótt víðar væri leitað.

Appið er í stöðugri þróun og sífellt bætast við nýir möguleikar. Á árinu var tekin í notkun kaskóskoðun í gegnum appið. Í staðinn fyrir að þurfa að koma með bílinn til okkar svo við getum staðfest ástand bílsins þegar kaskótrygging er keypt þá er einfaldlega hægt að taka myndir af bílnum í gegnum appið og senda okkur. Við yfirförum myndirnar fljótt, samþykkjum og gefum út trygginguna.

27. apr. 2019 : TM mót Stjörnunnar í Garðabæ

TM mót Stjörnunnar fór fram á knattspyrnusvæði Stjörnunnar í Garðabæ 27.–28. apríl og 4.–5. maí. Keppt var í 6., 7. og 8. flokki og mættu rúmlega 4.000 strákar og stelpur til leiks. Þetta er eitt stærsta mót sinnar tegundar ár hvert og var þetta í níunda sinn sem mótið var haldið. 

17. maí 2019 : TM fyrirmyndarfyrirtæki ársins 2019

TM er fyrirmyndarfyrirtæki ársins í flokki stórra fyrirtækja samkvæmt árlegri vinnumarkaðskönnun VR sem kynnt var 16. maí.

Horft er til níu lykilþátta í starfsumhverfi fyrirtækja: stjórnunar, starfsanda, launakjara, vinnuskilyrða, sveigjanleika vinnu, sjálfstæðis í starfi, ímyndar fyrirtækis, jafnréttis og hvort starfsmenn séu stoltir og ánægðir af starfsemi vinnustaðarins.

25. jún. 2019 : TM mótið í Vestmannaeyjum

TM mótið í Vestmannaeyjum fór fram dagana 13.–15. júní. Mótið er haldið árlega fyrir stelpur í 5. flokki í knattspyrnu. Mótið gekk mjög vel í alla staði og við þökkum öllum þátttakendum og aðstandendum kærlega fyrir komuna.

Myndir frá TM mótinu í Eyjum 2019
Liðsmyndir af öllum liðunum
Stemningsmyndir

15. júl. 2019 : Snjallir skynjarar fyrir viðskiptavini TM

TM hóf að bjóða viðskiptavinum sínum með heima- og/eða fasteignatryggingar snjalla skynjara að gjöf. Um tvær gerðir skynjara er að ræða sem báðar tengjast þráðlausu neti heimilisins, annars vegar snjallrafhlöðu sem sendir boð í farsíma ef reykskynjarinn fer í gang og hins vegar skynjara sem sendir boð í farsíma ef vatnsleka verður vart. Skynjararnir eru eingöngu í boði í gegnum TM appið og er það liður í þeirri stafrænu vegferð sem TM er á. 

10. okt. 2019 : TM undirritar samning um kaup á Lykli fjármögnun hf.

Eins og tilkynnt var þann 21. júlí átti Tryggingamiðstöðin hf. í einkaviðræðum við Klakka ehf. um kaup á Lykli fjármögnun hf. Þeim viðræðum lauk með undirritun samnings um kaup á 100% hlutafjár í Lykli. Kaupverðið var 9.250 m.kr. og þar að auki skuldbatt TM sig til að greiða hagnað Lykils á árinu 2019 til seljanda. Eigið fé Lykils var 11.688 m.kr. um mitt ár 2019.

Kaupin á Lykli eru í samræmi við stefnu TM og eftirleiðis mun starfsemi félagsins skiptast í þrjár jafn mikilvægar stoðir, vátryggingar, fjármögnun og fjárfestingar. Tækifæri eru til að bæta arðsemi af grunnrekstri Lykils. TM áætlar að hægt verði að ná fram töluverðum samlegðaráhrifum bæði í tekjum og kostnaði, fjölga fjármögnunarkostum og ná niður fjármagnskostnaði. Þá er stefnt að því að gera fjármagnsskipan hagkvæmari.

Á myndinni má sjá Jón Örn Guðmundsson forstjóra Klakka og Sigurð Viðarsson forstjóra TM undirrita kaupsamninginn.

14. okt. 2019 : TM með málstofu á Arctic Circle-ráðstefnunni

TM tók þátt í alþjóðlegu ráðstefnunni Arctic Circle sem haldin var í Hörpu 10.–12. október en þetta var í sjö­unda sinn sem ráðstefn­an var hald­in hér á landi. Um 2.000 þátt­tak­end­ur sóttu ráðstefn­una frá 50–60 lönd­um. Í 188 mál­stof­um með rúm­lega 600 ræðumönn­um birtist hin nýja heims­mynd sem nú er í mót­un þar sem norður­slóðir eru í vax­andi mæli vett­vang­ur allra helstu for­ystu­ríkja ver­ald­ar.

Til­gang­ur Arctic Circle er að skapa þverfag­leg­an vett­vang­ fyr­ir vís­inda­menn, stjórnmála­menn, at­vinnu­lífið og al­menn­ing til skoðana­skipta. Stefna skipu­leggj­enda hef­ur frá upp­hafi verið að blanda ekki deilu­mál­um í öðrum heims­hlut­um inn í umræðuna um norður­slóðir.

Framlag TM til ráðstefnunnar var málstofa þar sem Dance Zurovac-Jevtic, yfirloftslagssérfræðingur Sirius International Insurance Company, fjallaði um sýn sína á áhrif loftslagsbreytinga sem leiða til aukinna öfga í veðri og hvað það þýðir fyrir trygginga- og endurtryggingageirann.

08. nóv. 2019 : TM veitir Hvatningarverðlaun Sjávarútvegsráðstefnunnar

Svifaldan, Hvatningarverðlaun Sjávarútvegsráðstefnunnar og TM, var árið 2019 veitt í níunda sinn en markmið verðlaunanna er að hvetja ung fyrirtæki og frumkvöðla til dáða, stuðla að nýbreytni og vekja athygli almennings á gildi nýsköpunar og þróunar í sjávarútvegi. Svifaldan er gefin af TM en jafnframt voru veittar viðurkenningar til þeirra sem standa að þremur bestu verkefnunum að mati dómnefndar.

Niceland Seafood hlaut Svifölduna, Hvatningarverðlaun Sjávarútvegsráðstefnunnar og TM, fyrir nýstárlegar leiðir í sölu og markaðssetningu á íslenskum fiski.

Codland hlaut viðurkenningu Sjávarútvegsráðstefnunnar og TM fyrir framtak sem mun skapa verðmæti og atvinnu og tryggja þá ímynd enn fastar í sessi sem einkennt hefur íslenskan sjávarútveg um aukna nýtingu á hráefni til verðmætasköpunar.

Sjávarklasinn hlaut viðurkenningu Sjávarútvegsráðstefnunnar og TM fyrir stuðning við nýsköpun og samvinnu hinna ýmsu aðila innanlands og utan. 

27. nóv. 2019 : TM stytti vinnuvikuna og breytti opnunartíma

Þann 1. desember 2019 tók gildi stytting vinnuvikunnar hjá starfsfólki TM eins og síðustu kjarasamningar kveða á um. Í sam­ráði við starfs­fólk var ákveðið að vinnutíminn yrði styttur um 45 mín­út­ur á föstudögum en auk þess býðst starfsfólki að sleppa kaffitíma á föstudögum og stytta daginn enn frekar. Opnunartími TM er því eftirleiðis 9-16 alla virka daga nema föstudaga, þegar hann er 9-15.

03. des. 2019 : TM mót Stjörnunnar í handbolta

TM mót Stjörnunnar í handbolta var haldið sunnudaginn 1. desember 2019 í TM höllinni í Garðabæ. Mótið heppnaðist afar vel en um 500 handboltasnillingar í 8. flokki drengja og stúlkna mættu og skemmtu sér saman.

Þátttakendur fóru glaðir heim eftir skemmtilegan dag með medalíu og handbolta frá TM.

Liðsmyndir – TM mót Stjörnunnar, 8. flokkur

31. des. 2019 : Toyota- og Lexus-tryggingar í samstarf við TM

Toyota kynnti Toyota og Lexus-ökutækjatryggingar í samstarfi við TM. Toyota- og Lexus-tryggingar eru hefðbundnar ökutækjatryggingar vátryggðar af TM og bjóðast með nýjum og notuðum Toyota og Lexus-bílum hjá viðurkenndum söluaðilum. TM hefur undanfarin ár lagt áherslu á nýjar stafrænar þjónustuleiðir í tryggingum til að koma til móts við viðskiptavini og veita þeim framúrskarandi þjónustu. Samstarf TM og Toyota er varða á þeirri vegferð þar sem viðskiptavinir Toyota geta nú gengið frá bílatryggingunni um leið og bíllinn er keyptur.

07. jan. 2020 : TM lauk við kaup á Lykli

7. janúar 2020 var lokið við kaupin á Lykli með greiðslu kaupverðs, að undanskildu því sem nemur hagnaði Lykils árið 2019, og Lykill því orðinn hluti af samstæðu TM. Kaupin munu styrkja samstæðuna, auka hagnað til hluthafa og skapa spennandi tækifæri í vátrygginga- og fjármálaþjónustu á næstu misserum.

Á myndinni má sjá Sigurð Viðarsson forstjóra TM og Jón Örn Guðmundsson forstjóra Klakka handsala kaupin.

30. jan. 2020 : Nýtt skipurit TM hf.

Í samræmi við stefnu TM og markmið með kaupunum á Lykli var nýtt skipurit innleitt hjá félaginu sem endurspeglar nýjar áherslur og mun gera TM kleift að sækja fram í fjölbreyttri og framsækinni fjármálaþjónustu fyrir viðskiptavini samstæðunnar. Nýtt skipurit tók gildi 1. febrúar.

Skoða skipurit