Hugsum í framtíð
Vegferð TM í þróun nýrra og þægilegra lausna fyrir viðskiptavini hélt áfram á árinu 2019.
Félagið hóf að bjóða viðskiptavinum með heimatryggingar og fasteignatryggingar snjalla vatnsleka- og frostskynjara að gjöf sem þeir geta pantað í gegnum TM appið. Skemmdir á heimilum vegna vatnsleka eru meðal algengustu og oft og tíðum alvarlegustu tjóna sem verða á húsnæði og með skynjurum af þessu tagi má forðast eða takmarka tjón með tafarlausum viðbrögðum. Skynjararnir senda boð í farsíma viðskiptavinarins um leið og vatnsleka eða rakabreytinga verður vart og þannig er unnt að bregðast strax við.
TM hélt áfram að fjölga þeim tryggingum sem eru í boði á vefnum með það að markmiði að hægt sé að ganga frá öllum tryggingum fjölskyldunnar með sjálfvirkum, einföldum og fljótlegum hætti á þeim tíma sem viðskiptavininum hentar.
Meðal eftirtektarverðra nýjunga á árinu var hjólreiðatrygging TM sem er sérsniðin að þörfum hjólreiðafólks. Á heimasíðu TM leiðir rafræni ráðgjafinn Vádís viðskiptavininn í gegnum þægilegt ferli og setur saman tryggingu í samræmi við þarfir hvers og eins og einstaklingsbundnar forsendur á borð við verðmæti reiðhjóls og aukabúnaðar, þátttöku í keppnum innanlands og erlendis o.fl. Ferlinu lýkur svo með því að viðskiptavinurinn tekur myndir af hjólinu með TM appinu og virkjar þannig trygginguna.
Viðskiptavinir TM hafa tekið þróun okkar í tæknilausnum fagnandi og t.a.m. tvöfaldaðist fjöldi viðskiptavina með TM appið á árinu. Lausnir á borð við tryggingar á netinu og TM appið gera viðskiptavinum okkar í sífellt auknum mæli kleift að nýta sér þjónustu TM á sínum forsendum og þegar þeim hentar. Gott dæmi um þetta er að rúmlega helmingur þeirra sem kaupa tryggingar á netinu gera það utan hefðbundins opnunartíma og hlutfall þeirra sem tilkynna tjón með TM appinu er rúm 44%. Þá eru um 2/3 allra kaskóskoðana í gegnum appið framkvæmdar utan opnunartíma. Allt er þetta þjónusta sem fyrir örfáum misserum kallaði á heimsókn á þjónustuskrifstofu TM svo unnt væri að ganga frá málunum.
Viðtökur viðskiptavina við nýjungum TM eru okkur mikil hvatning og sú staðreynd að notendur sjálfvirkra lausna á vefnum og í TM appinu gefa okkur að meðaltali 4,6 stjörnur af 5 mögulegum er virkilega ánægjuleg. Hér eru örfá dæmi um athugasemdir sem við höfum fengið frá viðskiptavinum:
„Ótrúlega einfalt, fljótlegt og þægilegt. Algjörlega til fyrirmyndar. Hérna er sko fylgt nútímanum!“
„Mjög þægilegt að geta gert þetta á netinu og fá staðfestingu strax.“
„Mjög notendavænt, skýr og greinileg uppsetning! Ég er mjög ánægð með þetta.“
„VÁ! Frábær þjónusta.“
„Frábær upplifun og meiri háttar þjónusta.“
Ásetningur TM og árangur í þróun nýrra lausna hefur leitt
til þess að TM er með afgerandi hætti það félag sem talið er í fararbroddi á
tryggingamarkaðnum í dag þegar kemur að stafrænni þjónustu fyrir viðskiptavini
skv. könnun Gallup í nóvember 2019. Sú niðurstaða er mjög ánægjuleg og brýnir
okkur til áframhaldandi sóknar í þeim málum.
Í mars var svo tilkynnt að vefur TM hafi hlotið tilnefningu til Íslensku vefverðlaunanna 2020 í flokknum „söluvefur ársins“ og TM appið var tilnefnt í flokknum „app ársins“.
Í árslok 2019 var hleypt af stokkunum Toyota og Lexus-tryggingum sem eru vátryggðar af TM. Hér er á ferðinni samstarf sem á sér ekki hliðstæðu á íslenskum tryggingamarkaði þar sem viðskiptavinir Toyota og Lexus geta gengið frá bílatryggingum um leið og þeir kaupa nýjan eða notaðan bíl. Til viðbótar við frábæra þjónustu og trausta tryggingu fylgir ýmis aukaþjónusta með í kaupunum á borð við lengri afnot af bílaleigubíl á meðan bíll er í viðgerð og þrif á bílnum að henni lokinni. Við hjá TM erum mjög stolt af því að Toyota hafi valið TM sem samstarfsaðila í þessu verkefni og sjáum fjölmörg tækifæri til að nýta þá tækni og sjálfvirkni sem gerir okkur samstarfið kleift á mun fleiri sviðum í framtíðinni.
Við hlökkum til að kynna frekari nýjungar í vörum og þjónustu fyrir viðskiptavinum TM á árinu 2020. Hugsum í framtíð.